Erlent

Var Móses skakkur?

Óli Tynes skrifar
Lucy in the sky with diamonds?
Lucy in the sky with diamonds?

Ísraelítar kunna að hafa verið undir áhrifum plöntu sem framkallar ofsjónir, þegar Móses kom ofan af Sínaí fjalli með boðorðin tíu. Þetta segir sálfræðiprófessorinn Benny Shannon, við Hebreska háskólann í Jerúsalem.

Í annarri Mósebók Gamla testamentisins er sagt frá þrumum, eldingum og lúðrablæstri við þennan atburð. Shannon segir að í Sinai eyðimörkinni vaxi tvær plöntur sem framkalli miklar ofsjónir sem gjarnan tengist ljósadýrð og hávaða. Hann segist sjálfur hafa prófað þetta og orðið vel skakkur um það bil 160 sinnum.

Önnur þessara plantna kallast harmal. Shannon segir að gyðingar hafi löngum litið á hana sem lækninga og kraftaverkalyf.

Prófessor Shannon ritar um þetta grein í breska fagtímaritið "Time and Mind." En það eru ekki allir Biblíufræðingar upprifnir yfir kenningum hans.

Rabbíninn Yuval Sherlow sagði í viðtali við ísraelska útvarpið; "Biblían er að reyna að koma til skila einstökum atburði. Við þurfum ekki að hafa áhyggjur af örlögum Mósesar, heldur af örlögum vísindanna."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×