Manchester United varð í kvöld Evrópumeistari í knattspyrnu eftir sigur á Chelsea í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu.
Venjulegum leiktíma lauk með 1-1 jafntefli og ekkert mark var skorað í framlengingu. Markaskorari United, Cristiano Ronaldo, misnotaði sína spyrnu í vítaspyrnukeppninni og gat John Terry tryggt Chelsea sigur úr síðustu spyrnu Chelsea. Hann hins vegar rann til í bleytunni og setti boltann framhjá.
Í annarri umferð bráðabana vítaspyrnukeppninnar varði Edwin van der Sar frá Nicolas Anelka og tryggði þar með United sigurinn í keppninni.
Cristiano Ronaldo kom United yfir með glæsilegum skalla eftir sendingu Wes Brown á 26. mínútu leiksins en það var Frank Lampard sem jafnaði metin á lokamínútu fyrri hálfleiks.
Chelsea var sterkari aðilinn í síðari hálfleik en leikmönnum liðsins tókst ekki að skora þrátt fyrir nokkrar ágætar tilraunir. Leikurinn var því framlengdur.
Bæði lið fengu frábært marktækifæri í upphafi framlengingarinnar en augljóst var að taugarnar voru þandar til hins ítrasta undir lok hennar. Þá fékk Didier Drogba að líta rauða spjaldið fyrir að ýta við Nemanja Vidic.
Úrslitin réðust því í vítaspyrnukeppni eftir hádramatískan úrslitaleik sem var hin besta skemmtun.

Leikurinn fór eðlilega nokkuð rólega af stað en það voru þó United sem voru örlítið betri á upphafsmínútunum. Ronaldo skapaði fyrsta færi leiksins eftir um stundarfjórðung er hann gaf háa fyrirgjöf frá vinstri en Owen Hargreaves rétt missti af boltanum.
Skömmu síðar lenti Paul Scholes og Claude Makelele saman er þeir börðust um lausan bolta með þeim afleiðingum að Scholes lá blóðugur í andliti á vellinum. Báðir fengu að líta gula spjaldið fyrir atvikið.
Það var svo á 26. mínútu að fyrsta mark leiksins fæddist. Wes Brown og Scholes léku glæsilega sín á milli við hliðarlínuna sem lauk með því að Brown náði að losa sig í nægan tíma til að gefa háa sendingu inn á teig Chelsea þar sem Cristiano Ronaldo skallaði knöttinn glæsilega í netið.
Þetta var 42. mark Cristiano Ronaldo í öllum keppnum með Manchester United í vetur.

Á 33. mínútu fékk Chelsea sitt fyrsta góða færi í leiknum. Didier Drogba skallaði sendingu Frank Lampard fyrir mark United þar sem Michael Ballack og Rio Ferdinand áttust við. Boltinn fór af Ferdinand og hárfínt yfir mark United.
Í næstu sókn átti United þunga sókn þar sem Petr Cech varði tvívegis vel og forðaði því að United kæmist tveimur mörkum yfir í leiknum.
Frank Lampard vann svo boltann á miðjunni þegar lítið var eftir af fyrri hálfleik. Boltinn barst frá honum á Michael Essien sem lét vaða að marki. Nemanja Vidic varð fyrir skotinu og af honum fór boltinn beint fyrir fætur Lampard sem kom hlaupandi inn í teiginn og skoraði örugglega.
Chelsea fór mun betur af stað í síðari hálfleik og komst snemma tvívegis í gott skotfæri. Í bæði skiptin geiguðu skotin. Drogba átti svo glæsilegt skot á 78. mínútu rétt utan vítateigs en boltinn hafnaði í stönginni.

Framlengingin byrjaði með látum en Frank Lampard átti skot úr erfiðri stöðu sem hafnaði í sláni og mátti afar litlu muna að boltinn hefði hafnað í netinu. Skotið kom eftir laglega sókn Chelsea þar sem að Ballack var óeigingjarn og lagði upp færið fyrir Lampard í stað þess að skjóta sjálfur.
Á 101. mínútu fékk United sitt besta færi síðan í fyrri hálfleik venjulegs leiktíma. Patrice Evra tók frábæran sprett í gegnum vörn Chelsea en lagði boltann út á varamanninn Ryan Giggs. Hann var í góðu skotfæri, lét vaða að marki en John Terry varði glæsilega nánast á marklínu.
Leikmenn þreyttust mjög eftir því sem á leið leikinn og varð um leið þolinmæðin minni. Þegar um fimm mínútur voru eftir af framlengingunni fóru Terry og Tevez að hnakkrífast um smávægilegt atriði og leikmenn beggja liða tóku þátt í kjölfarið. Það lauk með því að Didier Drogba fékk rauða spjaldið fyrir að ýta við Vidic.
Eftir þetta fjaraði leikurinn út og því ekkert annað að gera en að láta úrslitin ráðast í vítaspyrnukeppni.
Gangur vítaspyrnukeppninnar:
Manchester United byrjaði.
2-1 Carlos Tevez skoraði.
2-2 Michael Ballack skoraði.
3-2 Michael Carrick skoraði.
3-3 Juliano Belletti skoraði.
Cristiano Ronaldo lét Petr Cech verja frá sér.
3-4 Frank Lampard skoraði.
4-4 Owen Hargreaves skoraði.
4-5 Ashley Cole skoraði.
5-5 Nani skoraði.
John Terry rann í bleytunni og hitti ekki markið.
Bráðabani:
6-5 Anderson skoraði.
6-6 Salomon Kalou skoraði.
7-6 Ryan Giggs skoraði.
Nicolas Anelka lét Edwin van der Sar verja frá sér.

Byrjunarliðin:
Manchester United (4-4-2): Edwin van der Sar; Wes Brown (120. Anderson), Rio Ferdinand, Nemanja Vidic, Patrice Evra; Owen Hargreaves, Paul Scholes (87. Giggs), Michael Carrick, Cristiano Ronaldo; Wayne Rooney (101. Nani), Carlos Tevez.
Varamenn: Tomasz Kuzczak, Anderson, Ryan Giggs, Nani, John O'Shea, Darren Fletcher, Mikael Silvestre.
Chelsea (4-3-3): Petr Cech; Michael Essien, Ricardo Carvalho, John Terry, Ashley Cole; Michael Ballack, Claude Makelele (120. Belletti), Frank Lampard; Joe Cole (99. Anelka), Didier Drogba, Florent Malouda (92. Kalou).
Varamenn: Carlo Cudicini, Andrei Shevchenko, John Obi Mikel, Salomon Kalou, Alex, Juliano Belletti, Nicolas Anelka.
Nokkrir molar um leikinn:
Í ár er hálf öld liðin frá flugslysinu í München og minnast margir stuðningsmenn Manchester United þess. Þá eru 40 ár liðin síðan liðið varð fyrst Evrópumeistari, eftir 4-1 sigur á Benfica á Wembley.
Á þessum degi fyrir 37 árum vann Chelsea sinn fyrsta Evrópumeistaratitil er liðið vann sigur á Real Madrid í Evrópukeppni bikarhafa.
Þá má einnig geta þess að þetta er í þriðja sinn sem lið frá sama landinu mætast í úrslitum Meistaradeildar Evrópu. Í bæði skiptin hefur liðið sem varð neðar í deildarkeppninni í viðkomandi landi unnið Meistaradeildina. AC Milan gerði það eftir sigur á Juventus árið 2003 og Real Madrid sömuleiðis eftir sigur á Valencia árið 2000.