Viðskipti innlent

Exista kýs að greiða lánið

Forstjóri Existu í símanum.
Forstjóri Existu í símanum. Markaðurinn/GVA

„Það var ákveðið fyrir nokkru að óska ekki eftir framlengingu á þeim hluta lánsins sem er á gjalddaga og nýta frekar sterka lausafjárstöðu félagsins til að greiða hann upp,“ segir Sigurður Nordal, framkvæmdastjóri samskiptasviðs Existu. Skuldir Existu lækkuðu um einn milljarð evra á fyrri hluta árs.

Exista tók á síðasta ári sambankalán upp á 500 milljónir evra, jafnvirði 43 milljarða íslenskra króna að þávirði. Miðað við gengi evru gagnvart krónunni nú er heildarupphæðin sautján milljörðum hærri.

Lánsfjárhæðinni var varið til fjármögnunar á eldri lánum. Lánið var í tveimur hlutum. Stærri hlutinn, upp á 407,5 milljónir evra og með 130 punkta álag á Euribor vexti, er til þriggja ára en afgangurinn, 92,5 milljónir evra með 62,5 punkta álag, var til eins árs og á gjalddaga nú um mánaðamótin. Framlengingarheimild var á þeim hluta til allt að þriggja ára með samþykki lánveitenda.

Sigurður segir markaðinn hafa breyst frá í fyrra og að þessi tegund af lánsfé sé öllu dýrara nú en þá. Hagkvæmara sé því að nýta sterka lausafjárstöðu og greiða þann hluta lánsins sem var á gjalddaga fremur en að endurfjármagna hann með sama hætti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×