Erlent

McCain reynir að verja Barack Obama

Óli Tynes skrifar
John McCain.
John McCain.

Repúblikanaflokkurinn í Norður-Karólínu hefur neitað að verða við beiðni Johns MCain um að draga til baka auglýsingu þar sem ráðist er á Barack Obama.

Í auglýsingunni er Obma sakaður um að vera of öfgafullur vegna þess að hann tilheyrði söfnuði þar sem presturinn flutti kjarnyrtar ræður.

Jeremia Wright er nú sestur í helgan stein en hann var sannkallaður eldklerkur. Hann flutti þrumandi ræður yfir söfnuði sínum og var hvass í orðum um samskipti kynþáttanna.

Einhver kristinn hægri repúblikani gróf upp að Obama hefði tilheyrt þessum söfnuði.

Obama var náttúrlega krafinn svara um hvort hann deildi skoðunum Wrights. Hann svaraði því til að hann gæti ekki afneitað presti sínum.

Þetta finnst kristnum repúblikönum gefa tilefni til þess að úthrópa þennan frambjóðanda demókrata sem öfgafullan.

McCain sagði í viðtali við NBC sjónvarpsstöðina að hann hefði gert allt sem í hans valdi stóð til þess að fá flokksbræður sína til þess að draga auglýsinguna til baka.

Það hefði því miður ekki tekist. McCain sagði að þessir menn væru ekki í tengslum við raunveruleikann.

"Við erum flokkur Abrahams Lincoln, Theodores Roosevelt og Ronalds Reagan og svona kosningabarátta er okkur ekki samboðin," sagði John McCain.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×