Erlent

Látið þið nornina okkar í friði

Óli Tynes skrifar
Nornin í Warboys skólamerkinu.
Nornin í Warboys skólamerkinu.

Íbúar þorpsins Warboys í Englandi eru rífandi ósáttir við þá ákvörðun skólastjórnar þorpsins að breyta merki skólans.

Það hefur ævinlega verið mynd af galdranorn ríðandi á kústi sínum. Þetta merki er á skólabúningum barnanna og einnig á klukkuturni skólans.

Í rökstuðningi fyrir því að breyta merkinu segir skólastjórnin að sumir foreldrar kjósi að senda börn sín ekki í skólann og að ein ástæðan sé nornin góða.

Kennarar hafi einnig gefið merkið upp sem eina ástæðu þess að þeir sæktu ekki um vinnu.

Skólastjórnin bætir því við að galdrar og hrekkjavökur séu ekki hluti af námsefninu, og að skólar reyni að forðast tengingar við slíkt.

Þetta eru íbúarnir ósáttir við og hafa hafið undirskriftaherferð til varnar norninni.

Það er svo sögulega áhugavert að það var einmitt í þorpinu Warboys sem nornir voru síðast hengdar í Englandi. Árið 1593 voru Alice Samuels, John eiginmaður hennar og Agnes dóttir þeirra hengd fyrir galdra.

Það var tíu ára stúlka sem fyrst bar fram ákæru um að fjölskyldan bæri ábyrgð á flogaköstum sem hún fengi. Fjórar systur hennar og þjónustufólk á heimilinu tóku svo undir ákæruna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×