Erlent

Danir íhuga að skjóta alla svarta svani

Óli Tynes skrifar
Danir vilja ekki sjá að svartir svanir fari að verpa þar.
Danir vilja ekki sjá að svartir svanir fari að verpa þar. Mynd/Vefurinn

Danir íhuga nú að skjóta svarta svani sem þar koma í æ stærri flokkum, til þess að vernda sinn hvíta svanastofn.

Danska blaðið Berlingske Tidende segir frá þessu undir fyrirsögninni: Svartur skuggi yfir þjóðfugli Danmerkur.

Líffræðingurinn Knud Flensted segir í grein á heimasíðu Danska fuglafræðifélagsins að svartir svanir séu ekki danskur stofn heldur komi þeir upprunalega frá Ástralíu.

Flestir svörtu svananna sem komi til Danmerkur séu fuglar sem hafi sloppið úr dýragörðum eða einkaræktendum skrúðfugla.

Flensted segir að flestir fuglarnir sem sjáist í Danmörku komi líklega frá Hollandi þar sem séu um sjötíu villt pör.

Fuglarnir eru enn ekki farnir að verpa í Danmörku og Flensted segir að gera beri allt sem hægt sé til að koma í veg fyrir það.

Innfluttar tegundir frá öðrum heimshlutum geti raskað jafnvægi í náttúrunni og ógnað hinum danska stofni hvítra hnúðsvana.

Flensted segir að til greina komi að skjóta alla svarta svani sem sjást til þess að koma í veg fyrir að þeir verpi.

„Við höfum hingað til ekki talið það nauðsynlegt. En ég er hræddur um að við þurfum að fara að endurskoða þá afstöðu."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×