Viðskipti innlent

Alfesca skilar góðu uppgjöri

xavier govare
xavier govare
Alfesca hagnaðist um 3,5 milljónir evra, jafnvirði 429 milljóna íslenskra króna, á öðrum ársfjórðungi, sem er sá fjórði í bókum félagsins. Þetta er svo til óbreytt staða frá því fyrir ári. Hagnaðurinn á árinu öllu nam 28,6 milljónum evra sem er 27,6 prósenta aukning á milli ára.

Uppgjörið er yfir væntingum enda samdráttur á neytendamörkuðum í Evrópu líkt og sölutölur Alfesca benda til. en þær drógust saman um 5,4 prósent. Greiningardeild Glitnis bendir á að jákvæð skattfærsla upp á 3,5 milljónir evra hífi afkomuna upp auk þess að páskar féllu á fjórða ársfjórðung.

Xavier Govare forstjóri er ánægður með afkomuna. Hann segir stjórnendur ekki hafa órað fyrir þeim verðhækkunum sem skollið hafi á og gert umhverfið afar krefjandi. Reiknað er með svipuðu árferði í nokkurn tíma.

Greint var frá því í júní að Sheikh Mohamed bin Khalifa Al-Thani, bróðir emírsins í Katar, ætli að kaupa 12,6 prósenta hlut í Alfesca.

Af því hefur enn ekki orðið en líkur eru á að af því verði fyrir ársfund félagsins í næsta mánuði. Þá verður sömuleiðis lagt til að greiddur verði út arður í fyrsta sinn, jafnvirði um 1,5 milljarða íslenskra króna. - jab





Fleiri fréttir

Sjá meira


×