Erlent

300 milljóna króna bankarán í Danmörku

Óli Tynes skrifar

Bankaræningjar sluppu með um 300 milljónir íslenskra króna þegar þeir rændu Den Danske bank í Brabrand hverfi í Árósum í dag. Ránið var greinilega þaulskipulagt og staðurinn vel valinn.

Bankinn í Brabrand er miðstöð peningamiðlunar Den Danske bank. Þaðan eru peningar fluttir til hinna ýmsu útibúa.

Bankaræningjarnir voru fjórir og allir grímuklæddir. Það tók þá tæpa mínútu að aka Toyota bifreið á fullri ferð í gegnum girðinguna sem umlykur bankann, tæma alla peninga úr einum peningaflutningabíl og forða sér á gullnum Audi skutbíl.

Audi bíllinn fannst síðdegis í grennd við Hörning. Mannlaus eins og vænta mátti. Lögreglan leitar ræningjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×