Erlent

Enn flækja útlimir bandarísk stjórnmál

Óli Tynes skrifar
Elísabet og John Edwards.
Elísabet og John Edwards.

Vonir Johns Edwards um að verða næsti forseti Bandaríkjanna eru hugsanlega brostnar eftir að bandaríska vikuritið National Enquierer upplýsti að hjákona hans sé komin sex mánuði á leið.

Edwards er kvæntur hinni krabbameinssjúku Elísabetu og þau eiga þrjú börn á aldrinum sjö til tuttugu og fimm ára.

National Enquierer er ekki áreiðanlegasti fjölmiðill í heimi en blaðið vitnar í vinkonur hinnar meintu ófrísku ástkonu.

Þær segja að hún hafi farið í felur eftir að Enquierer upplýsti fyrst um samband þeirra. Konan starfaði að sögn á kosningaskrifstofu frambjóðandans.

Forsetadraumar Edwards hvíldu svosem ekki á traustum grunni fyrir. Hann þarf jú að byrja á því að bera sigurorð af bæði Hillary Clinton og Barack Obama í baráttunni um að verða forsetaframbjóðandi Demokrataflokksins.

Bandaríkjamenn hafa litla þolinmæði gagnvart framhjáhaldi frambjóðenda sinna. Ef Edwards er með þessu endanlega úr leik er það svosem ekki í fyrsta skipti sem útlimur verður forsetaframbjóðanda að falli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×