Erlent

Vilja drepa bangsakennarann

Óli Tynes skrifar
Gillian Gibbons.
Gillian Gibbons.

Þúsundir manna mótmæltu því á götum Kharthoum í gær að breska kennslukonan Gillian Gibbons skyldi ekki vera dæmd í nema fimmtán daga fangelsi fyrir að leyfa sjö ára börnum börnum í bekk sínum að skíra bangsa Múhameð.

Mannfjöldinn vildi að hún yrði tekin af lífi. Margir mótmælendanna voru vopnaðir hnífum eða bareflum.

Talið er að um 10 þúsund manns hafi tekið þátt í mótmælunum. Fjölmargir lögreglumenn fylgdust með en aðhöfðust ekkert. Það þykir benda til þess að stjórnvöld í Súdan hafi gefið samþykki sitt.

"Þetta er hrokafull kona sem kom til landsins með laun í dollurum. Svo kennir hún börnum okkar að hata Múhameð spámann," sagði einn af leiðtogum múslima í samtali við Associated Press fréttastofuna.

Dauðasynd Gibbons fellst í því að þegar einn nemenda hennar kom með bangsa í skólann spurði hún hvað hann ætti að heita.

Börnin í bekknum vildu að hann héti Múhameð og á það féllst kennslukonan. Börnin fengu svo að taka bangsann með sér heim, eitt af öðru.

Þau héldu fyrir hann dagbók sem þau lásu svo upp fyrir allan bekkinn. Bókin fékk titilinn Ég heiti Múhameð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×