Erlent

Stórfelldur skortur á þyrlum í heiminum

Óli Tynes skrifar
Ein af þyrlum Landhelgisgæslunnar.
Ein af þyrlum Landhelgisgæslunnar. MYND/VG

Skortur á þyrlum til hjálparstarfa og friðargæslu er svo alvarlegur að hugsanlega verður hreinlega að hætta við einhver verkefni vegna hans.

Þyrluframleiðendur hafa ekki undan og bæði NATO og Evrópusambandið leita með logandi ljósi að þyrlum til þess að leigja.

Þyrlur eru óhemju dýrar bæði í innkaupum og rekstri. Ríkisstjórnir kaupa því ekki nema það allra minnsta sem þær komast af með.

Þyrlufloti heimsins hefur í raun verið of lítill í mörg ár. Á undanförnum fáum árum hafa svo friðargæsluverkefni stóraukist. Það hafa bæst við víðfeðm lönd eins og Afganistan og Afríka.

Það hefur dregið þyrluskortinn fram í dagsljósið og það er ljóst að þótt allir sem geti framleiði á fullu líða að minnsta kosti tvö ár áður en eftirspurn verður annað.

Og það er eftirspurn við núverandi aðstæður. Ef fleiri verkefni verða til verður tíminn auðvitað ennþá lengri.

Einn af ókostunum við þyrlur er að þær þurfa gríðarmikið viðhald. Eftir 500 flugtíma verður að taka þær í sundur til þess að yfirfara allt og setja svo saman aftur.

Tom Ripley varnarmálasérfræðingur hjá Jane´s Defense Weekly segir að til þess að halda úti átta þyrlum í eitt ár þurfi í raun 24 til 32 vélar, eftir því hversu aðstæðurnar séu erfiðar.

Það þurfi að skipta þyrlunum út á þriggja mánaða fresti, í viðhald. Og til að sinna viðhaldi og flugi þarf 150 til 200 manna liðssveit.

Það er nánast slegist um hverja einustu stóru þyrlu sem er á markaðinu. Íslensk yfirvöld þykja hafa staðið sig nokkuð vel við að styrkja þyrluflota Landhelgisgæslunnar eftir að varnarliðið hvarf skyndilega af landi brott.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×