Erlent

Ísland fylgist með rússneskum kafbátum

Óli Tynes skrifar
Rússneskur Typhoon kafbátur.
Rússneskur Typhoon kafbátur.

Ferðum rússneskra kafbáta undan ströndum Noregs hefur fjölgað verulega að undanförnu.

Eitt af meginhlutverkum bandaríska varnarliðsins á Íslandi var að fylgjast með ferðum rússneskra kafbáta og herskipa í gegnum GIUK-hliðið svokallaða.

Það er siglingaleiðinin milli Grænlands, Íslands og Bretlands. Um það fóru kjarnorkukafbátar Sovétríkjanna mikið þegar þeir þurftu að komast á haf út frá flotastöðvum á Kola skaga.

Í herstöðinni í Keflavík var jafnan heil flugsveit Orion kafbátaleitarvéla. Einnig komu þangað oft kafbátaleitarvélar frá öðrum NATO ríkjum svosem Noregi og Hollandi. Ísland þótti gott æfingasvæði fyrir kafbátaleit.

Þegar Sovétríkin liðuðust í sundur hættu þau að mestu eftirlitsflugi og kafbátaferðum á Norður- Atlantshafi. Flugið hefur verið að hefjast á ný undanfarin misseri og nú eru kafbátarnir komnir aftur.

Norska varnarmálaráðuneytið hefur staðfest við fjölmiðla að ferðum rússneskra kafbáta undan ströndum Noregs hafi fjölgað. Gera má því skóna að það sama eigi við um Ísland.

Hjá varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins fékk fréttastofan upplýst að íslensk stjórnvöld fengju upplýsingar um ferðir rússnesku kafbátanna frá öðrum NATO ríkjum, og fylgdust vel með gangi mála.

Enn sé verið að móta framtíðar varnar og öryggissamstarf við bandalagsríkin. Í því verði tekið tilliti til allra þátta. Einnig kafbátsferða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×