Erlent

Rússnesku kafbátarnir komnir aftur

Óli Tynes skrifar

Rússneskir kafbátar eru aftur komnir á kreik á Norður-Atlantshafi. Norska varnarmálaráðuneytið hefur staðfest við fjölmiðla að ferðum rússneskra kafbáta undan ströndum Noregs hafi fjölgað.

Gera má því skóna að það sama eigi við um Ísland.

Orion kafbátaleitarvélar norska sjóhersins hafa varpað hlustunarbaujum í grennd við kafbátana til þess að fá nákvæma staðsetningu þeirra.

Baujurnar senda frá sér hljóðmerki sem kafbátsmenn heyra. Rússarnir vita því að Norðmenn vita hvar þeir eru.

Talsmaður varnarmálaráðuneytisins segir að Rússar sendi með þessu skilaboð um að þeir séu stórveldi sem taka beri tillit til.

Þessari umferð sé ekki beint gegn neinu sérstöku landi og ekki gegn Noregi. En Noregur liggi jú þar sem Noregur liggi, landfræðilega.

Þegar Sovétríkin liðuðust í sundur hættu þau að mestu eftirlitsflugi og kafbátaferðum á Norður- Atlantshafi. Flugið hefur verið að hefjast á ný undanfarin misseri og nú eru kafbátarnir komnir aftur.

Kafbátaeftirlit á Norður-Atlantshafi var stór þáttur, í starfsemi bandaríska varnarliðsins á Íslandi. Hér var jafnan heil flugsveit af Orion kafbátaleitarvélum.

Jafnframt komu kafbátaleitarvélar frá öðrum NATO ríkjum til Íslands.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×