Erlent

Þess vegna pískum við stúlkuna

Óli Tynes skrifar
Dómurinn yfir fórnarlambinu hefur vakið heimsathygli.
Dómurinn yfir fórnarlambinu hefur vakið heimsathygli.

Stjórnvöld í Saudi-Arabíu hafa gefið skýringar á því af hverju refsidómur yfir nítján ára stúlku sem var nauðgað var stórlega þyngdur. Sjö menn nauðguðu stúlkunni alls fjórtán sinnum eftir að hafa rænt henni upp í bíl sinn.

Upphaflega var stúlkan dæmd til þess að vera pískuð 90 högg. Ástæðan var sú að þegar henni var rænt var hún að tala við karlmann sem ekki tilheyrði fjölskyldu hennar. Nauðgarar hennar voru dæmdir í tveggja til þriggja ára fangelsi.

Þegar stúlkan áfrýjaði þeim dómi var hann þyngdur upp í 200 vandarhögg og sex mánaða fangelsi.

Dómurinn yfir nauðgurunum var einnig þyngdur upp í tveggja til níu ára fangelsi. Útskýringar stórnvalda á þyngingu refsingarinnar eru ekki ítarlegar.

Aðeins er sagt að ný sönnunargögn gegn henni hafi komið í ljós. Dagblaðið Arab News hefur eftir heimildarmanni í dómskerfi Saudi-Arabíu að ein ástæðan fyrir þyngri dómi hafi verið sú að stúlkan hafi tjáð sig við fjölmiðla eftir að fyrri dómurinn féll.

Saudi-Arabiska dómsmálaráðuneytið viðurkennir að lögmaður stúlkunnar hafi verið rekinn frá málinu og sviptur málflutningsréttindum. Ástæðan fyrir því er sögð sú að hann hafi sýnt réttarkerfinu óvirðingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×