Erlent

Fyrsti Kmerinn fyrir dóm

Guðjón Helgason skrifar

Fyrstu réttarhöldin yfir leiðtoga Rauðu Kmerana í Kambódíu hófust í morgun. Þá mætti yfirmaður alræmdustu dýflyssu landsins fyrir sérskipaðan dómstól Sameinuðu þjóðanna til að svara til saka fyrir voðaverk á tímum ógnarstjórnar Kmeranna.

Rauðu kmerarnir voru við völd í Kambódíu frá 1975 til 1979. Þeim er kennt um dauða nærri tveggja milljóna manna.

Kaing Guek Eav, öðru nafni Duch, er 66 ára. Hann var leiddur inn í þéttskipaðan dómssalinn í morgun. Hann er fyrsti leiðtogi Rauðu kmeranna sem þarf að svara til saka fyrir ódæðin á valdatíma þeirra. Lögfræðingar hans höfðu óskað eftir því að hann yrði látinn laus gegn tryggingu áður en sjálfur málflutningurinn hefst á næstu dögum. Sú bón er nú til meðferðar.

Duch stjórnaði Tuol Sleng fangelsinu í höfuðborginni Phnom Penh með harðri hendi. Hann er ákærður fyrir glæpi gegn mannkyninu. Um 16 þúsund menn, konur og börn voru pyntuð þar og síðan myrt. 14 lifðu hörmungarnar í Tuol Sleng af.

4 til viðbótar eru í haldi og bíða þess að dómstóll Sameinuðu þjóðanna taki mál þeirra fyrir. Khieu Samphan, fyrrverandi forseti, var handtekinn í gær og Ieng Sary, fyrrverandi utanríkisráðherra í síðustu viku. Noun Chea, næstráðand á eftir leiðtoganum Pol Pot, er einnig í haldi auk Ieng Thirith, fyrrverandi félagsmálaráðherra. Pot sjálfur lést 1998.

Nokkurn tíma hefur tekið að draga Kmerana fyrir dóm. Margir þeirra hafa um frjálst höfuð strokið allar götur frá lokum ógnarstjórnarinnar. Sumir þeirra sem þurftu að þola harðræði hafa síðan búið í návígi við fyrrverandi kvalara sína. Nú vill þetta fólk að réttlætinu verði fullnægt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×