Erlent

500 hafa farist

Guðjón Helgason skrifar

Að minnsta kosti 500 manns létu lífið þegar fellibylur skall á suðurhluta Bangladess í gær. Tré rifnuðu upp með rótum og heilu þorpin voru jöfnuð við jörðu í veðurofsanum.

Stjórnvöld í Bangladess óttast að látnir reynist fleiri þar sem óvist sé hvort einhverjir hafi týnt lífi á svæðum sem einagruðust í óveðrinu. 650 þúsund Bangladessar voru fluttir frá heimilum sínum og í sérstök neyðarskýli áður en stormurinn gekk á land en sumir urðu eftir. Fjölmörg neyðarskýli voru byggð í Bangladess á áttunda áratug síðustu aldar eftir að fellibylur varð hálfri milljón manns að bana 1970.

Stormurinn skildi eftir sig slóð eyðileggingar og er talið að vindhraðinn hafi náð tæpum sextíu og sjö metrum á sekúndu. Þá er tuga fiskimanna saknað. Þeir létu stormviðvaranir sem vind um eyru þjóta og fóru ekki í land í gær. Talsmenn Rauða hálfmánans í Bangladess segja að í það minnsta þrjú þorp á ströndinni séu einfaldlega horfin eftir að fellibylurinn gekk yfir en honum fylgdi fimm metra há flóðbylgja. Í höfuðborg landsins Dhaka sögðu sjónarvottar að óveðrið hefði leikið byggingar grátt auk þess sem rafmagns- og vatnsleiðslur hafi farið í sundur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×