Erlent

Leitar víðtæks stuðnings

Guðjón Helgason skrifar

Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, leitar eftir stuðningi allra flokka á danska þinginu í mikilvægum málaflokkum nú þegar þriðja ríkisstjórn hans er í burðarliðnum. Meirihlutinn er naumur - stendur og fellur með Færeyingi og sýrlenskum innflytjanda.

Tæpara getur það varla verið. Meirihlutinn veltur á einum þingmanni - Færeyingnum Edumd Joensen. Hann er þó ekki á því að styðja Fogh Rasmussen í innanríkismálum - þykir það ekki viðeigandi frekar en að Danir skiptir sér að innanríkismálum Færeyinga.

Þetta þýðir að sýrlenski innflytjandinn Naser Khader og Nýja bandalagið hans eru í góðri stöðu nú þegar samið er um stuðning við stjórnina. Khader sagði fyrir kosningar að hann styddi Fogh Rasmussen í embættið en vildi að hann færi til drottningar og ósakði eftir nýju stjórnarmyndunarumboði. Það þurfti Fogh Rasmussen hins vegar ekki að gera fyrst að meirihlutinn hélt.

Khader segist styðja forsætisráðherrann í flestum innanríkismálum - þó ekki í skatta- eða innflytjendamálum. Áhugavert telja stjórnmálaskýrendur að sjá hvernig gangi að stilla saman strengi Nýja bandalagsins og Danska þjóðarflokksins - sem er með andsnúinn innflytjendum - til stuðnings við stjórn forsætisráðherra.

Þess vegna biðlar Fogh Rasmussen til allra flokka á þingi. Hann vill samstarf í erfiðum málaflokkum - sem dæmi í heilbrigðis-, umhverfis og orkumálum. Jafnaðarmenn - undir forystu Helle Thorning-Schmidt - sem hlutu verstu útkomu í kosningunum í heila öld - segjast reiðubúnir til viðræðna - það vilja hins vegar flokkarnir lengst til vinstri alls ekki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×