Erlent

Sakfelldur fyrir morðið á Gísla Þorkelssyni

Guðjón Helgason skrifar

Willie Theron, sem ákærður var fyrir morðið á Gísla Þorkelssyni í Suður-Afríku í maí 2005 var sakfelldur fyrir ódæðið fyrir dómi í Jóhannesarborg í dag.

Theron hefur neitað sök en samverkakona hans - Desiree Oberholzer, játaði aðild sína og hlaut tuttugu ára fangelsisdóm í fyrra.

Við sakfellingu nú er byggt á vitnisburði Oberholzer sem segir að Theron hafi skotið Gísla í höfuðið. Krufningarskýrsla styður við lýsingar hennar. Theron var einnig sakfelldur fyrir að hafa stolið bifreið Gísla, að hafa falsað skjöl til að stela fé af honum og einnig fyrir ólöglega vopnaeign.

Theron og Oberholzer ætluðu að komast yfir fé Gísla sem hafði búið í Suður-Afríku um margra ára skeið og stundað þar viðskipti. Þau sóttu hann á flugvöllinn í Jóhannesarborg við heimkomu frá Bandaríkjunum. Ætlunin var að myrða hann og fela líkið þannig að talið yrði að hann hefði aldrei snúið aftur frá Bandaríkjunum.

Líkið fannst um einum og hálfu mánuði eftir ódæðið - steypt í ruslatunnu. Hendrik Johannes Breedt, sem fann líkið, var í dag sýknaður af aðild að morðinu en sakfelldur fyrir vopnaeign. Eiginkona Therons, Linda, var sakfelld fyrir aðild að fjársvikum og einnig annar maður - Andre Koekemoer. Ekkert þeirra þriggja var talið hafa átt beina aðild að morðinu.

Dómur yfir Theron verður kveðinn upp á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×