Erlent

Nýtt leikrit eftir Havel

Óli Tynes skrifar
Vaclav Havel, leikskáld og fyrrverandi forseti.
Vaclav Havel, leikskáld og fyrrverandi forseti.

Nýtt leikrit eftir Vaclav Havel, fyrrverandi forseta Tékklands kemur í bókabúðir síðar í þessum mánuði. Það kemur ekki á óvart að leikritið fjallar um pólitík og mannlegan breyskleika.

Leikritið heitir Brotthvarfið en Havel segir að það hafi ekkert með sitt brotthvarf úr pólitík að gera, því hann hafi byrjað á því löngu áður en hann varð forseti.

Í örstuttu máli er söguþráðurinn þannig að þjóðarleiðtogi er kominn að lokum valdatíma síns. Hann verður að flytja úr hinum glæsilega ríkisbústað sínum...eða hann getur fengið að vera þar áfram gegn því að styðja nýju ríkisstjórnina.

Vaclav Havel sem nú er 71 árs gamall byrjaði að skrifa leikrit á sjötta áratug síðustu aldar. Þau voru flest bönnuð meðan kommúnistar réðu Tékkóslóvakíu og hann sat nær fimm ár í fangelsi fyrir mannréttindabaráttu sína.

Árið 1989 leiddi hann Flauelsbyltinguna þar sem kommúnistum var steypt af stóli án blóðsúthellinga. Hann varð forseti það ár gegndi því embætti til 1992. Og hann var forseti Tékklands frá 1993 til 2003 eftir aðskilnaðinn frá Slóvakíu.

Þessi fyrrverandi forseti Tékklands og Vigdís Finnbogadóttir fyrrverandi forseti Íslands eru góðir vinir. Árið 1990 kom Havel hingað til lands til að vera viðstaddur frumsýningu á leikriti sínu Endurbyggingin.

Ráðgert er að Brotthvarfið komi á fjalirnar næsta vor.

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×