Erlent

Ítalir setja neyðarlög um brottrekstur innflytjenda

Óli Tynes skrifar
Frá Róm.
Frá Róm.

Ítalía hefur sett neyðarlög sem gefur lögreglunni rýmri heimildir til þess að vísa ríkisborgurum Evrópusambandsríkja úr landi. Tuttugu Rúmenar hafa þegar verið reknir frá Ítalíu og það hefur valdið spennu milli landanna. Í síðustu viku var ráðist á fjóra Rúmena fyrir utan stórmarkað í Róm og þeir barðir og stungnir með hnífum.

Þetta fylgir í kjölfar fjölmargra afbrota sem Rúmenskum innflytjendum er kennt um. Sérstaklega vakti reiði hnífamorð á eiginkonu ítalsks sjóliðsforingja sem Rúmeni hefur verið handtekinn fyrir. Þetta hefur vakið svo mikla geðshræringu í landinu að stjórnvöldum er hætt að standa á sama.

Piereluigi Bersani, iðnaðarráðherra Ítalíu sagði á blaðamannafundi í Búkarest að ítalska ríkisstjórnin muni ekki líða taumlaust útlendingahatur og árásir á innflytjendur.

Evrópusambandið félls í gær með semingi á neyðarlögin um brottrekstur sem Ítalir hafa sett. Samkvæmt þeim geta Ítalir rekið úr landi útlenda ríkisborgara Evrópusambandsins ef þeir eru taldir hættulegir. Dómari verður að undirrita brottvísunina, en það fara ekki fram nein réttarhöld. Og lögreglan þarf ekki að leggja fram sakaskrá viðkomandi máli sínu til stuðnings.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×