Erlent

Metnir sem lífshættulegir bílar

Guðjón Helgason skrifar

Toyota Hilux pallbílar eru lífshættulegir að mati sænsks bílablaðs. Bifreiðin fer nærri því að velta í ökuprófi. Samskonar próf olli vandræðum fyrir A-bíl Mercedez Benz fyrir áratug.

Það er sænska bílablaðið Teknisk Värld sem gerir þetta svokallaða elgspróf. Það hefur löngum verið notað í Svíþjóð til að kanna hversu vel er hægt að víkja bifreiðum frá óvæntri hindrun - svo sem eins og elg á miðjum veginum.

1997 stóðst A-bíll Mercedez Benz það ekki og olli það töluverðum vandræðum sem kostuðu framleiðendur nokkuð fé.

Blaðið gerði á dögunum ýmis próf á nokkrum pallbílum - þar á meðal Mitsubishi L tvö hundruð og Toyota Hilux. Elgsprófið gekk nokkuð vel þegar Mitsubishi bifreiðinni var ekið um æfingasvæðið. Þegar kom að Toyota Hilux bifreiðinni var annað upp á teningnum. Hún fór ansi nálægt því að velta á hliðinna þar sem hún fór um á tæplega sextíu kílómetra hraða.

Það er mat blaðamanna hjá Teknisk Värld að Hilux bifreiðarnar séu lífshættulegur fararskjóti miðað við prófið. Talsmaður Toyota í Svíþjóð segir að niðurstöðuna verði að taka alvarlega.

Toyota Hilux bílar eru vinsælir víða um heim. Í fyrra voru 236 slíkir seldir á Íslandi og 464 það sem af er þessu ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×