Erlent

Fallni tamílaleiðtoginn hitti marga Íslendinga

Óli Tynes skrifar
S.P. Tamilselvan og Erik Solheim, í Sviss.
S.P. Tamilselvan og Erik Solheim, í Sviss. MYND/AP

Tamílaleiðtoginn sem Bjarni Vestmann heilsaði á Sri Lanka á dögunum var einn af þeim Tamílum sem Norðmaðurinn Erik Solheim átti mest samskipti við þegar hann var að reyna að koma á friði í landinu. Solheim var árið 2000 skipaður sérstakur sáttasemjari Noregs.

Og S.P. Tamilselvan var aðal samningamaður Tamíl tígranna. Hann féll í loftárás stjórnarhers Sri Lanka á höfuðstöðvar Tamíl tígra í morgun.

Solheim var einn af höfundum vopnahlésins sem var undirritað árið 2002. Hann átti marga fundi með Tamilselvan og fór vel á með þeim, eins og sjá má á myndinni hér að ofan. Hún var tekin í Sviss fyrir nákvæmlega einu ári.

Stjórnvöld á Sri Lanka urðu auðvitað að sætta sig við að Erik Solheim talaði við Tamíla, en brugðust ókvæða við þegar Bjarni hitti leiðtogann. Það var reyndar alveg óvart. Bjarni var á ferð með öðrum Norðurlandabúum og vissi ekki að til stæði að hitta Tamilselvan.

Eftir fundinn varð svo mikið uppnám að ákveðið var að senda Bjarna til annarra starfa fyrir utanríkisráðuneytið.

Fleiri Íslendingar hittu Tamilselvan, meðal annars Teitur Þorkelsson, sem var í íslensku friðargæslunni á Sri Lanka 2002-2003.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×