Erlent

Ráðuneytisstjóri fauk eftir koss

Óli Tynes skrifar
Kossinn sem kostaði ráðuneytsstjórann stöðuna.
Kossinn sem kostaði ráðuneytsstjórann stöðuna. MYND/Jimmy Vixtröm/Aftenposten

Ráðuneytisstjóri í sænska forsætisráðuneytinu hefur sagt af sér eftir að myndir birtust af henni ölvaðri að kyssa sjónvarpsfréttamann á krá í Stokkhólmi. Ulrika Schenström er 35 ára gömul. Hún var einn af nánustu samstarfsmönnum Friðriks Reinfeldt, forsætisráðherra.

Eitt af hlutverkum hennar var að stýra almannavörnum ef neyðarástand kæmi upp. Því er haldið fram að hún hafi verið á bakvakt í því hlutverki kvöldið örlagaríka.

Það er einmitt það sem er talið alvarlegt í þessu máli. Yfirleitt eru ekki gerðar athugasemdir við það þótt sænskir stjórnmálamenn slái sér upp, meðan þeir haga sér nokkurnvegin skikkanlega. Og að vera undir áhrifum og kyssa einhvern er ekki í sjálfu sér dauðasynd.

Að vera undir áhrifum þegar maður er á bakvakt í neyðarnefnd er hinsvegar bannað. Raunar hefur ekki verið staðfest að hún hafi verið á bakvakt.

Reinfeldt forsætisráðherra sagði að ekki væru gefnar upplýsingar um hverjir stýrðu neyðarnefndum ríkisstjórnarinnar hverju sinni. Í fyrstu studdi Reinfeld vinkonu sína. Hann sagðist hafa spurt hana hvort hún hefði verið ölvuð og hún hefði svarað því neitandi.

Þegar hann hinsvegar hafi séð barreikninginn hafi hún misst traust hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×