Erlent

Bandaríska utanríkisþjónustan gerir uppreisn vegna Íraks

Óli Tynes skrifar
Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna.
Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna.

Starfsmenn bandarísku untaríkisráðuneytisins eru ævareiðir yfir því að ákveðið hefur verið að skylda þá til þess að þjóna í Írak. Að öðrum kosti verði þeir reknir. Þetta var ákveðið vegna þess að hvergi nærri nógu margir diplomatar hafa boðist til þess að fara til Íraks. Þrátt fyrir stórfelldar bónusgreiðslur og fríðindi.

Bandaríkjastjórn er nú að byggja stærsta sendiráð í heimi á bökkum árinnar Tígris í Bagdad. Þar eiga að vera 250 diplomatapóstar en það vantar enn 50 sjálfboðaliða til þess að fylla þær stöður. Mörghundruð reiðir diplomatar mættu á fund um þetta mál sem haldinn var í Washington í gærkvöldi.

Condoleezza Rice, utanríkisráðherra, var ekki viðstödd en hinsvegar voru þar nokkrir nánustu samstarfsmenn hennar sem sátu fyrir svörum Í stuttu máli helltu diplomatarnir úr skálum reiði sinnar yfir utanríkisráðuneytið og ráðherrann persónulega.

Meðal annars var því haldið fram að aðeins 12 prósent þeirra tryðu því að Rice bæri hag þeirra fyrir brjósti. Einn fundargesta uppskar mikið lófatak þegar hann sagði að sprengjur féllu daglega í grennd við sendiráðið og að það væri dauðadómur að vera sendur þangað.

Bandaríska blaðið Washington Post segir að þrír bandarískir sendiráðsstarfsmenn hafi fallið í Írak síðan innrásin var gerð þar árið 2003.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×