Erlent

Múslimar fá enga afsökunarbeiðni -utanríkisráðherra Danmerkur

Óli Tynes skrifar
Hið umdeilda auglðýsingaplakat.
Hið umdeilda auglðýsingaplakat.

Utanríkisráðherra Danmerkur segir að enginn muni biðja múslima afsökunar á því að Danski þjóðarflokkurinn skuli nota mynd af Múhameð spámanni á einu auglýsingaplakati sínu.

Æðsti klerkur múslima í Jerúsalem hefur fordæmt myndina. Hann krefst þess að hún verði bönnuð og múslimar beðnir afsökunar. Jafnframt hvetur hann ríki múslima til þess að taka þessu ekki þegjandi.

Eins og sjá má á meðfylgjandi ljósmynd sýnir teikningin á plakatinu góðlegan skeggjaðan mann með vefjarhött. Það er kannski ekki furða þótt hann sé góðlegur því myndin er tekin úr bók sem múslimar gáfu sjálfir út fyrir 300-400 árum.

Með plakatinu er vissulega verið að vísa til múhameðsteikninganna sem ollu svo miklu uppnámi á sínum tíma. Í textanum segir "Málfrelsi er danskt, ritskoðun er það ekki."

Per Stig Möller, utanríkisráðherra Danmerkur sagði um kröfu klerksins í Jerúsalem; "Ríkisstjórnin hvorki getur né vill banna þetta plakat. Og við getum heldur ekki beðist afsökunar á því. Það verða þeir að læra að skilja. Í lýðræðisríki eins og Danmörku eru það dómstólar sem setja slík takmörk, ekki ríkisstjórnin."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×