Erlent

Taylor fær að halda milljarða málverki

Óli Tynes skrifar

Hæstiréttur Bandaríkjanna hefur úrskurðað að Elísabet Taylor fái að halda málverki eftir Vincent Van Gogh sem faðir hennar keypti á uppboði árið 1963. Kaupverðið var um 15 milljónir króna en í dag er verkið metið á marga milljarða.

Verkið heitir; "Séð yfir hælið og kapelluna í Saint-Remy." Van Gogh málaði það árið 1889 einu ári áður en hann svipti sig lífi.

Fyrir stríð var málverkið í eigu gyðingakonunnar Margarethe Mauthners. Það voru fjórir afkomendur hennar sem gerðu tilkall til málverksins. Þeir sögðu að hún hefði neyðst til að selja það áður en hún flúði Þýskaland nazista árið 1939.

Lögfræðingur Taylors benti á að það hefðu verið tveir listaverkasalar af Gyðingaættum sem seldu málverkið listaverkasafnara sem var Gyðingur. Því sé lítil ástæða til þess að ætla að það hafi verið nazistar sem neyddu Margarethe Mauthners til þess að selja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×