Erlent

Gerðu Ísraelar árás á kjarnorkuver í Sýrlandi?

Ísraelar hafa áður gert árás á kjarnorkuver í nágrannaríki.
Ísraelar hafa áður gert árás á kjarnorkuver í nágrannaríki.

Nýjar gervihnattamyndir sýna að Sýrlendingar hafa jafnað við jörðu byggingu sem hugsanlega var leynilegt kjarnorkuver, sem Ísraelar gerðu loftárás á í síðasta mánuði. Bandaríska kjarnorkurannsóknastofnunin Institute for Science and International Security (ISIS) segir að myndirnar hafi verið teknar síðastliðinn miðvikudag.

Á myndunum má sjá traktora og jarðýtur þar sem byggingin stóð áður. Mikil leynd hefur hvílt yfir loftárásunum sem Ísraelar gerðu í Sýrlandi 6. september síðastliðinn. Ísraelska ríkisstjórnin gefur venjulega nokkuð nákvæmar upplýsingar um loftárásir sínar en um þessar hefur verið þagað þunnu hljóði. Menn ráða út frá því að málið þyki einstaklega viðkvæmt.

Það er ekki nýtt að Ísraelar reyni að koma í veg fyrir að nágrannaríki þeirra komi sér upp kjarnorkuvopnum. Árið 1981 lögðu þeir í rúst Osirak kjarnorkuverið í Írak. Þeir sögðu að Saddam Hussein hefði verið að reyna að smíða kjarnorkuvopn þar.

Alþjóða kjarnorkustofnunin vill lítið tjá sig um yfirlýsingar ISIS nema hvað talsmenn þar segja að málið sé í rannsókn. Sýrland er aðildi að sáttmálanum um takmörkun dreifingu kjarnorkuvopna. Landinu hefði því borið skylda til að segja Alþjóða kjarnorkustofnuninni frá ef það hefði byggt nýtt kjarnorkuver. Engin slík tilkynning hefur borist stofnuninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×