Erlent

Gorbachev neitaði að fjarlægja valbrána

Óli Tynes skrifar
Gorbachev á Íslandi á síðasta ári -með vörumerkið fræga.
Gorbachev á Íslandi á síðasta ári -með vörumerkið fræga.

Mikhail Gorbachev fyrrverandi leiðtogi Sovétríkjanna upplýsti í danska sjónvarpinu í gærkvöldi að sér hefði aldrei komið til hugar að láta fjarlægja valbrána af höfði sér. Lílega hefði fáum sjónvarpsmönnum öðrum en dönskum dottið í hug að spyrja hann þeirrar spurningar.

En Gorbachev tók hana ekki nærri sér. Hann sagði að þegar hann var yngri hafi hann verið með þykkt og mikið hár sem huldi valbrána. Eftir því sem hárunum fækkaði sást valbráin betur. Gorbachev sagði að einhver hefði einhverntíma lagt til að hann léti fjarlægja hana.

"En ég hafnaði því. Ekki vegna þess að ég hafi verið hræddur við aðgerðina heldur vegna þess að fólk hafði þegar séð mig með valbrána. Ef ég hefði látið fjarlægja hana hefði fólki fundist að ég væri að fegra sjálfan mig þegar ég hefði átt að vera að hugsa um eitthvað mikilvægara. Þessvegna lét ég hana í friði."

Á fyrstu opinberu myndunum af leiðtoganum árið 1985 var valbráin að vísu þurrkuð burt í myndvinnslu. Við það var þó fljótlega hætt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×