Erlent

Pólverjar kjósa þing

Guðjón Helgason skrifar

Pólverjar ganga að kjörborðinu í dag og kjósa sér þing - tveimur árum á undan áætlun. Skömmu fyrir hádegi höfðu um fimmtíu Pólverjar búsettir á Íslandi greitt atkvæði í Alþjóðahúsinu í Reykjavík.

Boðað var til snemmbúinna kosninga eftir að samsteypustjórn Jaroslaws Kaczynskis, forsætisráðherra, liðaðist í sundur í sumar vegna spillingamáls. Kannanir benda til þess að íhaldsflokkur Kaczynskis verði ekki við völd eftir kosningarnar og að næsti forsætisráðherra verði annar hægrimaður, Donald Tusk. Flokkur hans vill kalla hermenn heimf rá Írak, styrkja samstarf við ESB ríki og hrinda í framkvæmd efnahagsumbótum sem verði til að styrkja einkaframtak.

Kjörstaðir í Póllandi voru opnaðir kl. 4 í nótt að íslenskum tíma og verður þeim síðustu lokað skömmu eftir kl. 18 í kvöld. Ekki er von á útgönguspám fyrr en skömmu fyrir kl. 18:30.

Um 30 milljón Pólverjar eru á kjörskrá. Kjörsókn kann að ráða úrslitum í kosningunum en síðast var hún aðeins 40%. Óttast er að hún verði enn minni nú - undir kjósendur láti sig stjórnmál lítt varða og greiði ekki atkvæði.

Tæplega 500 Pólverjar af þeim nærri sex þúsund sem búa á Íslandi ætla að kjósa í dag og hafa skráð sig til þess. Kjörfundur er nú í Alþjóðahúsinu í Reykjavík. Nú skömmu fyrir hádegi höfðu rúmlega 50 greitt atkvæði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×