Erlent

Grunaður níðingur handtekinn

Guðjón Helgason skrifar

Grunaður barnaníðingur sem eftirlýstur hefur verið um allan heim í þrjú ár var handtekinn í Taílandi í dag. Það var aðstoð almennings um allan heim sem réð því að hægt var að hafa hendur í hári hans.

Myndin af Christopher Paul Neil hefur farið um allan heim síðan sérfræðingar Alþjóðalögreglunar, Interpol, áttu við ljósmyndir af manni þar sem hann níddist á ungum drengjum. Andlit hans var afhjúpað og leitað upplýsinga um hver var á ferð. Nafnið fékkst nokkrum dögum síðar en ekki var vitað með vissu hvar kanadíski enskukennarinn Neil var niðurkominn - aðeins að hann færi huldu höfði í Taílandi.

Neil, sem er 32 ára, var handtekinn í smábænum Nakhon Ratchasima, um tvö hundruð og fimmtíu kílómetrum norð-austur af Bangkok. Hann sýndi engan mótþróa. Lögregla fékk ábendingu um að Neil hefði sést í slagtogi við klæðskipting þar. Lögreglulið var sent að húsi sem þeir leigðu saman og þar var hann handtekinn.

Pongsapat Pongchareon, talsmaður taílensku lögreglunnar, segir að þeir lögreglumenn sem hafi handtekið Neil hafi spurt hann til nafns og fengið rétt svar. Hann hafi síðan ekki viljað segja neitt um hvað hann væri að gera.

Alþjóðalögreglan segir málið dæmi um það hversu nauðsynleg samvinna milli landa sé í málum sem þessum. Nick Moran hjá Interpol sagði það kaldhæðnislegt að ósk um hjálp hefði verið sett á internetið í ljósi þess að Neil eða einhver annar hefði sett þessar myndir á netið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×