Erlent

Angelina Pedersen

Óli Tynes skrifar
Danskir foreldrar virðast sjá Angelinu í hillingum.
Danskir foreldrar virðast sjá Angelinu í hillingum.

Ozzy, Scarlett, Angelina, Bono og Shakira eru flutt til Danmerkur. Og einnig John Lennon. John þessi Lennon heitir að vísu Christiansen að eftirnafni. Nyhedsavisen í Danmörku hefur farið í nafnaskrár þar í landi og komist að því að æ fleiri foreldrar skíra nöfn börn sín eftir frægum leikurum eða söngstjörnum.

Þeir fundu 2.346 Dani með stjörnunöfn. Vinsælustu nöfnin eru Alicia, Angelina og Justin. Nenna Meng sem býr í Korsör á sex mánaða gamla Angelinu. Hana langar til þess að eignast Justin eða Brad. Erlend stjörnunöfn eru svosem ekkert nýtt fyrirbæri í Danmörku.

Á sjötta áratugnum voru börn skírð Santana, Elvis, Ringo og Lennon. Og hin 34 ára gamla Cher Pedersen frá Gentofte er oft beðin um að taka lagið. "Ég get ekki gert að því að ég átti hippaforeldra," segir Cher sem hefur skírt börn sín gömlum og góðum dönskum nöfnum.

Danska mannanafnanefndin virðist ekki vera jafn ströng og sú íslenska.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×