Erlent

Tyrkneski herinn fékk heimild til innrásar í Írak

Óli Tynes skrifar
Kúrdiskir vígamenn í Norður-Írak.
Kúrdiskir vígamenn í Norður-Írak.

Tyrkneska þingið samþykkti í dag með miklum meirihluta að gefa tyrkneska hernum heimild til þess að ráðast á víghreiður Kúrda í Norður-Írak. Sextíu þúsund tyrkneskir hermenn eru nú við landamæri ríkjanna, reiðubúnir að ráðast yfir þau. Tayyip Erdogan, forsætisráðherra segir að ekki verði endilega lagt til atlögu strax.

Hryðjuverkamenn úr hinum svokallaða Kúrdiska verkamannaflokki hafa á undanförnum vikum fellt tugi tyrkneskra borgara og hermanna, í árásum yfir landamærin. Við það vilja Tyrkir ekki una lengur. Bandaríkjamenn hafa hinsvegar latt þá mjög til árásar, þar sem þeir óttast að það muni hleypa Norðurhéruðum Íraks í bál og brand. Þau eru einu héruð landsins þar sem ríkir sæmilegur friður.

Írösk stjórnvöld hafa einnig sent fulltrúa sinn til Tyrklands til þess að reyna að finna aðra lausn en stríð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×