Erlent

Drykkjarvatn Oslóar eitrað

Óli Tynes skrifar
Sníkillinn er stórhættulegur fólki.
Sníkillinn er stórhættulegur fólki.

Hættulegur sníkill hefur fundist í drykkjarvatni frá veitu sem sér 80 prósentum Oslóarborgar fyrir vatni. Fólki er ráðlagt að sjóða í minnst þrjár mínútur allt vatn sem á að nota til drykkjar, matargerðar eða til þess að bursta tennur. Fólki er einnig ráðlagt að fá sér ekki ísmola og sagt að sjálfvirkar kaffikönnur hiti vatnið ekki nægilega til þess að drepa sníkilinn.

Samskonar eitrun kom upp í Bergen árið 2004. Yfir sexþúsund veiktust þá og að minnsta kosti 150 hafa ekki náð sér ennþá. Þeir þjást af ógleði, verkjum og meltingatruflunum. Sníkillinn eða sníkjudýrið tekur sér bólfestu í maga og þörmum.

Hann veldur miklum niðurgangi og uppköstum sem geta leitt til ofþornunar og jafnvel dauða. Sníkillinn verður til í saur manna og dýra. Til er hreinsibúnaður sem gerir hann óvirkan en ekki hefur verið á áætlun að setja upp slíkan búnað í viðkomandi vatnsbóli fyrr en á næsta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×