Erlent

Tyrkir halda fast við innrás í Írak

Óli Tynes skrifar
Kúrdiskir vígamenn í Írak.
Kúrdiskir vígamenn í Írak.

Tyrkneskur hershöfðingi sagði í dag að of snemmt sé að segja til um nákvæmlega hvenær verður ráðist inn í Írak eða hversu miklum herafla verði beitt. Tyrkneska ríkisstjórnin ætlar í þessari viku að biðja þingið um að heimila slíka árás. Það er gert í kjölfar þess að vígamenn hins svokallaða Kúrdiska verkamannaflokks hafa fellt tugi Tyrkja við landamærin undanfarnar vikur.

Bæði óbreyttir borgarar og hermenn hafa fallið í árásum Kúrda yfir landamærin, en þeir hafa bækistöðvar í Norður-Írak. Bandaríkjamenn hafa skilgreint Kúrdiska verkamannaflokkinn sem hryðjuverkasamtök en hafa engu að síður miklar áhyggjur af tyrkneskri árás yfir landamærin.

Norðurhéruð Íraks eru nánast þau einustu þar sem ríkir sæmilegur friður. Bandaríkjamenn óttast að það gæti verið úr sögunni ef Tyrkir ráðast yfir landamærin.

Tyrkir segja hinsvegar að þeir eigi ekki annarra kosta völ en að verjast árásum Kúrdanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×