Körfubolti

Pavel útskrifaður af sjúkrahúsi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Pavel Ermolinskij hefur lengi þótt meðal efnilegustu og bestu körfuboltamanna landsins.
Pavel Ermolinskij hefur lengi þótt meðal efnilegustu og bestu körfuboltamanna landsins. Mynd/Róbert

Pavel Ermolinskij var í gær útskrifaður af sjúkrahúsi eftir að lunga hans féll saman á æfingu í síðustu viku.

Hann leikur með spænska B-deildarliðinu CB Huelva þar sem hann er á láni frá úrvalsdeildarliðinu Unicaja.

„Þetta gerðist á æfingu á þriðjudaginn í síðustu viku. Þá fékk ég högg á brjóstkassann og fór rifbein í annað lungað þannig að það féll saman," sagði Pavel í samtali við Vísi í dag.

„Þetta var mjög sársaukafullt. Ég átt erfitt með að anda og gat ekki staðið uppréttur. Ég vissi strax að þetta væri eitthvað alvarlegt og var ég fluttur upp á sjúkrahús."

Eftir að röntgenmynd var tekin af honum var ákveðið að framkvæma bráðaaðgerð.

„Ég fór beint í aðgerð, enn sveittur og í körfuboltaskónum. Eftir það var ég á sjúkrahúsinu í viku þar sem það var sett rör í brjóstkassann til að ná út lofti og blóði."

Hann segir að hann muni á næstunni gangast undir ýmisar skoðanir og þá muni framhaldið koma betur í ljós. Hann á þó von á því að hann geti byrjað að æfa á nýjan leik eftir 2-3 vikur.

„Höggið var í sjálfu sér ekkert svo þungt og það brotnuðu ekki nein rifbein. Hann hefur bara hitt mig svona vel."

Huelva hefur byrjað tímabilið vel og unnið fyrstu tvo leikina. Pavel segir hins vegar að honum hefur gengið fremur illa til þessa.

„Á undirbúningstímabilinu átti ég við meiðsli að stríða og náði aldrei að æfa meira en 3-4 daga í röð. Ég hef því ekki náð að koma mér nógu vel inn í liðið. En ég er nokkuð viss um að ég fái mín tækifæri þegar ég verð orðinn leikfær á ný."

Annar Íslendingur er á mála hjá Huelva, Damon Johnson.

„Damon hefur gengið mjög vel. Hann hefur verið aðalmaðurinn í þessum tveimur sigurleikjum og hefur í raun tekið að sér stöðu leiðtoga í liðinu."

Pavel kvartar þó ekki undan dvölinni, þvert á móti.

„Þetta er mjög fínn klúbbur og mér líður vel hér."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×