Íslenski boltinn

Óli Stefán: Hamingjusamasti maður landsins

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Óli Stefán Flóventsson, leikmaður Grindavíkur.
Óli Stefán Flóventsson, leikmaður Grindavíkur. Mynd/Valli

Óli Stefán Flóventsson, fyrirliði Grindavíkur, segist vera hamingjusamasti maður Íslands í dag.

Grindavík varð í dag deildameistari í 1. deild karla þrátt fyrir 1-0 tap fyrir Fjarðabyggð á útivelli.

ÍBV vann hins vegar Fjölni sem þýddi að Grindavík stóð uppi sem meistari.

„Það var mikið stress í gangi þegar Fjölnir komst yfir í Eyjum en sem betur fer datt þetta allt réttu megin,“ sagði Óli Stefán við Vísi í kvöld.

„En það var mjög sérstakt að fagna svona innilega eftir tapleik. En það var ótrúlega gaman að fá að lyfta bikarnum og er frábært að vera kominn upp aftur í efstu deild.“

Óli Stefán hélt tryggð við Grindavík þegar liðið féll í fyrra eins og svo margir félagar hans.

„Ég lít á það sem að ég hafi verið að uppskera laun erfiðisns í dag með því að fá að lyfta dollunni fyrir mitt félag. Ég hugsa að það sé ekki til hamingjusamari maður á Íslandi í dag.“

Hann segir að allt starf innan félagsins hafi verið unnið upp á nýtt frá grunni þetta síðasta ár. „Þessi vinna er að skila sér núna. Við erum allir gríðarlega ánægðir með þetta.“

Óli Stefán segist einnig hlakka til þess að spila í tólf liða efstu deild á næsta ári.

„Ég undrast að það sé ekki löngu búið að breyta þessu því þetta er frábært fyrirkomulag. Nú er þetta orðið alvöru mót.“ 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×