Erlent

Óttast um öryggi sitt vegna nauðgunarsenu

Guðjón Helgason skrifar

Tólf ára afganskur aðalleikari í kvikmyndinni Flugdrekahlauparinn vill að nauðgunaratriði verði klippt úr myndinni. Hann óttast um öryggi sitt og fjölskyldu sinnar vegna þess. Þau verið jafnvel útskúfuð.

Ahmad Khan Mahmidzada fékk jafnvirði rúmlega sex hundruð þúsund króna fyrir að leika Hassan í myndinni, sem byggir á samnefndir skáldsögu afgansk-bandríska rithöfundarins Khaleds Hosseinis. Það er töluverð upphæð í ljósi þess að mánaðarlaun kennara eru rúmlega fjögur þúsund krónur.

Ahmad óttast að hann og fjölskylda hans verði útskúfuð eða fyrir árásum vegna nauðgunarsenu í myndinni. Hassan er nauðgað og fjallar bókin og þá myndin meðal annars um hvernig það hefur áhrif á vinskap hans við drenginn Amir, sem verður vitni að ódæðinu en aðhefst ekkert.

Faðir Ahmads og aðrir Afganar við tökur í Kína mótmæltu atriðinu harðlega og vildu banna drengnum að leika í því.

Ahmed segir sjálfur að Afganar vitiið lítið um kvikmyndir og kvikmyndagerð og því muni þeir halda að naugunaratriðið sé að sýna eitthvað sem hafi í raun gerst. Þá verði hann fyrir aðkasti og stríðni vegna þess hvert sem hann fari.

Ahmad og fjölskylda hans vilja nú að atriðið verði tekið upp á nýtt eða þá klippt út alfarið. Framleiðendur segja það gera myndina samhengislausa auk þess sem farið hafi verið að óskum fjölskyldunnar þegar atriðið var tekið.

Myndin verður frumsýnd á Íslandi í febrúar á næsta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×