Erlent

Herforingjastjórninni refsað

Guðjón Helgason skrifar

Bandaríkjaforseti boðar refsiaðgerðir gegn herforingjastjórninni í Myanmar vegna mannréttindabrota. Fjölmenn mótmæli voru í stærstu borg landsins - áttunda daginn í röð - þar sem lýðræðis var krafist.

Í ræðu sinni á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í dag tíundaði Bush Bandaríkjaforseti mannréttindabrot herforingjastjórnarinnar í Myanmar, áður Búrma, síðustu 19 árin. Tjáningarfelsi væri ekkert, fólki bannað að funda auk þess sem skoruður væru settar við trúariðkun. Þjóðarbrot væru ofsótt, börn neydd til þrælkunarvinnu. Fólk gengi kaupum og sölu og nauðganir væru tíðar. Herforingjarnir séu með rúmlega þúsund pólitíska fanga í haldi, þar á meðal Aung San Suu Kyi, en flokkur hennar hafi verið kosinn til valda með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða íbúa í Búrma árið 1990.

Forsetinn hótaði ekki innrás en boðaið annars konar þvinganir. Leiðtogum herforingjastjórnarinnar og ættingjum þeirra yrði bannað að ferðast til Bandaríkjanna og eignir þeirra þar í landi frystar. Lánadrottnum þeirra yrði refsað. Bandaríkjamenn ætluðu að styðja við mannréttindasamtök í landinu. Bush hvatti ríki Sameinuðu þjóðanna til að grípa til samskonar aðgerða.

Mótmælum Búddamunka og almennra borgara í Myanmar var haldið áfram í Yangon - stærstu borg landsins - í dag - áttunda daginn í röð - þrátt fyrir hótanir herforingjanna um að brjóta þau á bak aftur. Vopnaðir óeirðalögreglumenn voru sendir til borgarinnar. Ekki kom til átaka. Síðdegis var svo tilkynnt að útgöngubann yrði í gildi frá klukkan níu í kvöld að staðartíma og til klukkan fimm í fyrramálið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×