Erlent

Fordæmislaus fundur SÞ um hnattræna hlýnun

Guðjón Helgason skrifar

Fordæmislaus leiðtogafundur um hnattræna hlýnun var haldinn á vettvangi Sameinuðu þjóðanna í New York í dag. 150 ríki áttu fulltrúa á fundinum - þar á meðal Ísland. Bandaríkjaforseti mætti ekki.

Tilgangur fundarins var að tryggja árangur á næsta fundi um Loftslagssamninginn sem haldinn verður á Balí í Indónesíu í desember. Verið er að semja um framhaldið eftir að Kyoto-sáttmálinn rennur út 2012.

Fundinn í dag sóttu fyrir Íslands hönd þær Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, og Þórunn Sveinbjarnardóttir, umhverfisráðherra.

Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, segir mikilvægt að setja skýr markmið í viðræðum. Þjóðir heims yrðu að vinna saman. Hann segir loftslagsbreytingar og hvað verði gert þeim, muni skilgreina núlifandi ráðamenn til framtíðar og arfleifð þeirra.

Athygli vakti að George Bush, Bandaríkjaforseti, mætti ekki í dag en hefur boðað fulltrúa sextán mestu mengunarríkja til fundar við sig í lok vikunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×