Erlent

Vlad er slyngur

Óli Tynes skrifar
Putin er aðeins 54 ára og við hestaheilsu.
Putin er aðeins 54 ára og við hestaheilsu.

Fréttaskýrendur segja að Vladimir Putin forseti Rússlands hafi sýnt mikil klókindi með því að skipa hinn óþekkta Viktor Subkov í embætti forsætisráðherra og opna honum þarmeð leið að forsetaembættinu þegar síðara kjörtímabil Putins rennur út á næsta ári. Rússneskir forsetar mega ekki sitja nema tvö kjörtímabil né bjóða sig fram eftir sjötugt. Zubkov verður orðinn sjötugur árið 2012 þegar aftur verður kosið til forseta. Það verður þá opin leið fyrir Putin að bjóða sig fram aftur.

Samkvæmt rússneskum lögum mega fyrrverandi forsetar bjóða sig fram aftur eftir að hafa verið utan embættis í eitt kjörtímabil. Putin er ekki nema 54 ára gamall og við hestaheilsu. Hann hefur sjálfur lýst því yfir að hann ætli ekki að hætta í stjórnmálum þegar kjörtímabil hans rennur út.

Ef hann hefði opnað forsetaembættið fyrir yngri manni væri alltaf fyrir hendi sú hætta að sá vildi ekki víkja til hliðar eftir eitt kjörtímabil. Viktor Subkov er mjög handgenginn Putin og því tilvalinn kostur til að halda forsetastólnum volgum fyrir hann í fjögur ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×