Erlent

Óttast að fleiri hafi týnt lífi

Guðjón Helgason skrifar

Minnst 7 týndu lífi og 100 slösuðust þegar 2 öflugir jarðskjálftar skóku indónesísku eyjuna Súmötru með skömmu millibli í dag. Flóðbylgjuviðvörun var þegar gefin út af ótta við miklar hamfarir.

Fyrri skjálftinn mældist 8,2 á Richter og fannst hann hann allt til Singapor og Tælands. Sá síðari var 6,1 á Richter. Margir eftirskjálftar riðu síðan yfir.

Yfirvöld í Indlandi, Malasíu og öðrum nágrannalöndum gáfu út flóðbylgjuviðvaranir en margar voru dregnar til baka eftir því sem leið á daginn. Mörg hús í Padang á vesturströnd Súmötru hrundu til grunna í skjálftunum. Fólk hljóp skelfingu lostið út úr húsum í Jakarta, höfuðborg Indónesíu. Byggingar munu hafa sveiflast til og þegar út var komið gengu götur í bylgjum.

Vitað er að 7 hið minnsta týndu lífi í skjálftunum en yfirvöld í ríkjum á svæðinu óttast að mun fleiri hafi slasast illa eða jafnvel farist. Eftir sé að skoða afskekkt svæði og það verði ekki hægt fyrr en á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×