Erlent

SAS flugvélar í rannsókn

Guðjón Helgason skrifar

Tveimur flugvélum SAS flugfélagsins, sömu tegundar og þeirrar sem var lent við illan leik í Álaborg á sunnudag, var snúið við í gær vegna bilunar. Allar flugvélar þessarar tegundar eru nú í rækilegri skoðun.

Slysið er í rannsókn. Á flugi var ljóst að lendingarbúnaður hægra megin á Dash 8 Q400 vél SAS flugfélagsins var bilaður. Þegar flugvélin lenti gaf hann sig.

Thomas Poulsen, farþegi, segist hafa heyrt mikinn hvell og séð mikla blossa fljúga um loftið. Gler og rúður hafi brotnað. Hann hafi séð hluta hreyfilsins tæta sig inn í farþegarýmið. Farþegar segja fjögurra manna áhöfnina hafa staðið sig eins og hetjur og hjálpað farþegum eftir megni að búa sig undir erfiða og áhættusama lendingu.

Í gær varð að snúa tveimur vélum SAS af þessari gerð við skömmu eftir flugtak vegna bilunar. Ofhitnun varð í farþegarými annarrar en bilun varð í stélbúnaði hinnar. Allar vélar þessarar tegundar hjá félaginu fóru síðan í skoðun í gær en komið hefur í ljós að SAS barst viðvörun frá framleiðendum fyrir tveimur árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×