Erlent

Nýnasistar handteknir í Ísrael

Guðjón Helgason skrifar

Fyrirfram hefði mátt ætla að engir nýnasistar væru í Ísrael. Lögreglan þar í landi hefur þó handtekið átta slíka.

Ísraelska lögreglan greindi frá því í dag að tekist hefði að brjóta upp sellu nýnasista í landinu. Átta menn voru handteknir en sá níundi flúði land. Allir eru þeir með ísraelska ríkisborgararrétt en af Austur-Evrópsku bergi brotnu. Þeir eru á aldrinum 16 til 21 árs.

Mickey Rosenfeld, talsmaður ísraelsku lögreglunnar, segir gagna hafa verið aflað síðan fyrir einu og hálfu ári - eða eftir að ráðist var á tvö samkunduhús og þau eyðilögð. Hakakrossar og önnur tákn máluð á veggi inni og að utan.

Mennirnir réðust gegn erlendum verkamönnum, trúræknum gyðingum og samkynhneigðum. Ofbeldisverkin voru minnst fimmtán að sögn lögreglu. Mennirnir munu hafa myndað ódæði sín.

Þegar leit var gerð á heimilum mannanna fundust byssur, hnífar, sprengiefni, nasistabúningar og myndir af leiðtoganum, Adolf Hitler.

Mál sem þessi eru ekki óþekkt í Ísrael en afar sjaldgæf - enda ríkið stofnað fyrir nærri sextíu árum sem athvarf gyðinga eftir helförina. Málið nú er það umfangsmesta sinnar tegundar í Ísrael.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×