Erlent

Kallað hermenn heim en ekki gæsluliða

Guðjón Helgason skrifar

Nærri tuttugu þjóðir hafa kallað herlið sitt heim frá Írak frá innrásinni 2003. Fulltrúar sumra ríkjanna starfa þó enn þar á vegum Sameinuðu þjóðanna eða Atlantshafsbandalagsins þrátt fyrir heimkvaðningu hermanna.

Bandarískir hermenn í Írak eru nú 158 þúsund er voru 250 þúsund. Bretar voru með 45 þúsund hermenn en þeir eru nú 5.500 og fer fækkandi. Pólverjar hafa verið með fjölmennt herlið í Írak frá innrásinni 2003 - 2500 hermenn þegar mest var - nú 194. Ástralar voru með 2000 manna lið í landinu en 638 hermenn nú.

Sautján lönd til viðbótar hafa lagt til herlið en kallað hluta þess heim. Þar á meðal eru Suðurkóreumenn, Eystrasaltsríkin, Rúmenar, Georgíumenn, Salvadorar, Tékkar, Aserar, Mongólar, Armenar, Albanar, Bosníumenn og Búlgarar. Samanlagt telur lið þessara ríkja 3200 hermenn.

Önnur lönd hafa ákveðið að stíga skrefið til fulls og hafa kallað allt herlið heim. Þar á meðal eru Danir, Úkraínumenn, Hollendingar, Spánverjar, Japanar, Ungverjar, Norðmenn og Nýsjálendingar. Samanlagt nærri 11000 hermenn.

Mörg þessi ríki eru þó enn með fulltrúa sína að störfum í Írak vegna ýmissa verkefna NATO eða Sameinuðu þjóðanna. Þar á meðal eru Danir og Hollendingar að þjálfa íraskar lögreglusveitir. Íslendingar hafa ákveðið að kalla upplýsingafulltrúa þess verkefnis heim en Íslendingar hafa gegnt því verkefni síða 2005. Áður voru tveir íslenskir sprengjusérfræðingar í Írak sem hafa báðir snúið heim fyrir nokkru.

Umræða um heimkvaðningu hermanna hefur magnast í Bandaríkjunum síðustu vikur. David Petraeus, herforingi í Írak, og Ryan Crocker, sendiherra Bandríkjanna, skil Bandaríkjaþingi skýrslu á mánudaginn þar sem þeir meta hvaða áhrif það hafi haft að að fjölga bandarískum hermönnum í Írak í sumar. Stjórnmálaskýrendur segja niðurstöðuna ráða ákvörðun Bush Bandaríkjaforseta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×