Erlent

Lykillinn sem hefði getað bjargað Titanic

Óli Tynes skrifar
Titanic.
Titanic.

Lykill sem hugsanlega hefði getað forðað Titanic frá því að sigla á ísjakann verður seldur á uppboði í Bretlandi í næsta mánuði. Lykillinn gekk að hirslu sem geymdi sjónauka fyrir útsýnistunnu skipsins. Skipverji sem var á útkíkki þegar Titanic sigldi á borgarísjakann sagði fyrir sjórétti að ef þeir hefðu haft sjónauka hefur þeir séð jakann það mikið fyrr að þeir hefðu getað sveigt frá honum.

Það var David Blair annar stýrimaður á Titanic sem geymdi lykilinn. Til stóð að hann færi í jómfrúrferðina með skipinu. Á síðustu stundu ákvað útgerðin að senda frekar annan stýrimann, sem hafði meiri reynslu af stórum skipum.

Tíminn var þá naumur að Blair varð að pakka í snatri og koma sér í landi. Hann tók ekki eftir því fyrr en Titanic var farið að hann var ennþá með lykilinn í vasanum. En allir vissu að Titanic gat ekki sokkið og enginn bjóst við að það yrðu borgarísjakar á leiðinni. Blair fannst því ekki ástæða til að gera neitt í málinu.

Fyrir sjórétti mætti hinsvegar Fred Fleet, sem hafði verið á útkíkki þegar áreksturinn varð. Hann minntist þess að hafa séð David Blair með sjónauka. Hann vissi hinsvegar ekki hvað hefði orðið af honum. Formaður rannsóknarnefndarinnar spurði hann hvort þeir hefðu séð jakann í meiri fjarlægð ef þeir hefðu haft sjónauka.

"Við hefðum séð hann aðeins fyrr."

"Hversu miklu fyrr ?"

"Ja, nóg til þess að geta beygt frá honum."

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×