Erlent

Dýrt að vingsa túttunum

Óli Tynes skrifar
Bannað að lyfta bolnum.
Bannað að lyfta bolnum.

Abbi-Louise Maple og Rachel Marchant eru báðar 21. árs gamlar. Á sumrin fara þær oft á baðströndina í West Worthing, í Englandi, þar sem þær eiga heima. Þar voru þær staddar fyrr í sumar þegar þær veittu athygli eftirlitsmyndavél sem notuð er til þess að fylgjast með ströndinni. Flissandi biðu þær eftir að vélin beindist að þeim. Þá lyftu þær upp bolunum og vingsuðu herlegheitum sínum. Svo veltust þær um í sandinum, skríkjandi af hlátri.

Manninum sem stjórnaði eftirlitsvélinni var hinsvegar ekki skemmt. Satt að segja varð hann svo fúll að hann kærði stúlkurnar fyrir blygðunarbrot. Fyrir slíkt getur maður fengið sex mánaða fangelsi eða sjöhundruð þúsund króna sekt, í Bretlandi.

Abbi og Rachel neita sök og benda á að algengt sé að konur sóli sig berar að ofan á ströndinni. Saksóknarinn segir á móti að í aðeins eins kílómetra fjarlægð frá þeim vinkonum sé sérstakur fjölskyldureitur á baðströndinni.

Málið stendur nú þannig að það verður réttað yfir stúlkunum. Með lögfræðingum, dómara, kviðdómendum, starfsmönnum dómsins og öllu klabbinu. Það kostar skattborgarana um eina milljón króna á dag.

Þær Abbi og Rachel segjast ekki vita hvort þær eigi að hlæja eða gráta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×