Erlent

Margar falskar nauðgunarkærur

Óli Tynes skrifar
Falskar kærur taka mikinn tíma frá lögreglunni.
Falskar kærur taka mikinn tíma frá lögreglunni.

Danska lögreglan hefur af því áhyggjur hvað hún hefur fengið margar falskar nauðgunarkærur í sumar. Síðast í dag játaði fimmtán ára gömul stúlka að hún hefði logið þegar hún sagði að fjórir útlendingar í rauðum fólksbíl hefðu nauðgað sér í Kaupmannahöfn í vikunni. Upplognu kærurnar taka mikinn tíma og mannskap frá lögreglunni.

Játning fimmtán ára stúlkunnar á því að hún hefði logið er sú nýjasta af mörgum. Í Vordingborg uppástóð 22 ára gömul kona að henni hefði verið hópnauðgað. Við rannsókn málsins viðurkenndi hún að það hefði aldrei gerst.

Tuttugu og þriggja ára gömul kona í Hilleröd kærði einnig hópnauðgun, en það var sömu sögu að segja. Í Falster viðurkenndu tvær 16 ára stúlkur að þær hefðu skáldað upp sögu um að tveir eldri menn hefðu nauðgað þeim.

Á Fjóni hafði fölsk kæra alvarlegar afleiðingar þegar vinir hins meinta fórnarlambs réðust á og misþyrmdu manninum sem hún hafði logið uppá.

Danska lögreglan lítur þetta alvarlegum augum. Talsmaður hennar segir að mikið ferli fari af stað þegar nauðgun sé kærð. Þá fari bæði heilbrigðisstarfsmenn og lögreglan af stað og tugir manna séu settir í að upplýsa málið. Falskar ákærur steli þannig dýrmætum tíma frá rannsóknum á raunverulegum afbrotum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×