Erlent

Slapp lítið slasaður úr flugslysi

Guðjón Helgason skrifar

Tvítugur Kanadamaður vann frækilegt afrek þegar hann bjargaði Íslendingi og kanadískri konu úr flaki flugvélarinnar sem hrapaði í Kanada á laugardaginn. Faðir Íslendingsins segir hann hafa sloppið vel. Annar Íslendingur fórst í slysinu en hann flaug flugvélinni.

Flugvélin sem fjórmenningarnir voru í steyptist til jarðar í skóglendi nærri Squamish í Kanada. Þar hékk flakið um einum metra frá jörðu í trjám. Íslendingurinn Guðni Rúnar Kristinsson flaug henni - en hann lést í slysinu.

Björgunarþyrlur komu að slysstaðnum um fjórum klukkustundum eftir að Cessna 172 flugvélinni hlekktist á. Björgunarflugmaður sem þekkir til staðhátta segir líklegast að flugmaðurinn hafi flogið of lágt til að ná að hækka flugið áður en hann lenti í trjánum.

Íslendingurinn Davíð Jónsson var í vélinni og var í fyrstu talið að hann hefði hlotið alvarleg höfuðmeiðsl. Svo reyndist ekki vera. Jón Jónsson, faðir hans, segir hann hafa sloppið vel miðað við hvernig allt leit út í fyrstu. Hann hafi lærbrotnað en brotið hafi verið hreint. Mikið hafi blætt úr höfði Davíðs og því talið að hann væri illa meiddur á höfði. Síðar hafi komið í ljós að um yfirborðs sár hafi verið að ræða.

Jón segir son sinn líkast til losna af sjúkrahúsi í dag en hann þurfi að vera á hækjum í sex vikur og fara í sjúkraþjálfun.

Tvítugur Kanadamaður - vinur Davíðs og Guðna Rúnars - bjargaði Davíð og nítján ára kanadískri stúlku úr vélinni eftir slysið og hlúði að þeim þar til björgunarmenn komu á vettvang.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×