Erlent

Fjölskyldum danskra hermanna hótað

Óli Tynes skrifar
Danskir hermenn á vígvellinum.
Danskir hermenn á vígvellinum.

Íraskir hryðjuverkamenn hafa hlerað símtöl danskra hermanna við fjölskyldur sínar. Þeir hafa svo hringt í fjölskyldurnar og hótað þeim öllu illu, að sögn vefmiðilsins avisen.dk. Danskur sérfræðingur í sálfræðihernaði segir þetta hafa ótrúlega lamandi áhrif á hermennina. Varnarmálaráðuneytið vil ekki upplýsa um umfang þessara hótana.

Hryðjuverkamenn í Írak og Afganistan eru orðnir betri í hlerunum og öðrum hátæknihernaði en þeir voru áður. Það hafa danskir hermenn fengið að reyna á eigin skinni. Bandarískum og breskum hermönnum er bannað að nota farsíma til einkasímtala á vígvellinum. Það hefur danska varnarmálaráðuneytið hinsvegar ekki gert.

Steen Kjærgård, sérfræðingur í sálfræðihernaði við danska herskólann segir að dönskum hermönnum sem hafa lent í þessu sé mjög brugðið. Þeir séu ekki færir um að vernda fjölskyldur sínar, þegar þeir séu í Írak eða Afganistan. Þetta veki mikinn ótta og óróa sem komi niður á einbeitingu þeirra og bardagahæfni.

Leyniþjónusta danska hersins lítur málið mjög alvarlegum augum og er að rannsaka það.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×