Erlent

Grafa með skóflum og berum höndum

Guðjón Helgason skrifar

Björgunarmenn og almennir borgarar grafa nú með skóflum og berum höndum í rústum húsa í bænum Katanya í Norður-Írak þar sem sjálfsvígssprengjuárás varð minnst tvö hundruð manns að bana í gær. Fjórar flutningabifreiðar fullar af sprengiefni voru sprengdar í loft upp nær samtímis.

Nær 300 manns særðust og fjölmargra er enn saknað. Óttast er að margir liggi lifandi undir rústum húsa sem hrundu í árásinni og að björgunarmenn komist ekki að þeim í tæka tíð.

Íbúar í borginni eru flestir Jasídíar sem teljast til Kúrda. Þeir eru oft skotmörk múslima sem segja þá trúleysingja. Bandaríkjamenn segja liðsmenn al-Kaída hryðjuverkasamtakanna bera ábyrgð á árásinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×